Salomon Hengill Ultra Trail verður nú haldin níunda árið í röð þann 5-6. júní næstkomandi. Þess má geta að þátttaka í hlaupinu gefur UTMB punkta.
Staðsetning og tímasetningar 100 km hlaupið hefst kl. 22 að kvöldi 5. júní. Hinar vegalengdirnar fara fram 6. júní. Byrjunarreitur allra vegalengda og mótsstjórn verður við Skyrgerðina veitingastað og gistiheimili í hjarta Hveragerðis.
Vegalengdir Eins og í fyrra verður hlaupið í 5 km, 10 km, 25 km, 50 km og 100 km sem er lengsta utanvega hlaup á Íslandi. Í ár verður í fyrsta sinn boðið upp á 100 km liðakeppni sem er skipt upp þannig að fjórir keppendur hlaupa 25 km hringinn.
Skráning og verð Skráning fer fram hér.
Verð er frá 4.500 og upp í 29.900 allt eftir því hvaða vegalengd er valin.
Til að koma til móts við þátttakendur á þessum skrítnu tímum bjóðum við 20% afslátt af skráningargjaldi til 4. maí og til þess að tryggja sér hann skráir þú afsláttar kóðan sigrumc19 inn í þar til gert svæði í skráningarferlinu.
Hlaupaleiðir Byrjunarreitur allra vegalengda og mótsstjórn verður við Skyrgerðina veitingastað og gistiheimili í hjarta Hveragerðis. Styttri vegalengdirnar eru í kringum Hveragerði og upp að Hamrinum sem er gríðarlega fallegur hraunhamar yfir bænum. 25KM vegalengdin er upp Reykjadalinn upp að Ölkelduhnjúk og í kringum hann. Vegleg drykkjastöð verður á Ölkelduhálsi. 50KM hlauparar hlaupa hinsvegar áfram inn að Hengli, yfir fjallgarðinn, niður Sleggjubeinsskarð þar sem er salerni og vel útbúin drykkjarstöð og þaðan til baka. Þeir sem hlaupa 100KM hlaupa svo þá leið tvisvar. Útsýnið frá Hengli er algjörlega einstakt og er þessi hlaupaleið ein sú fallegasta sem hægt er að finna á Íslandi. Sjáðu nánar um hlaupin hér.
Annað Skipuleggjendur hafa ákveðið að gera breytingar á ræsingu, uppsetningu verðlaunaafhendingar og þá verður ræst í hollum og flögutími látin gildi en ekki tími hópræsingar. Þetta er að sjálfsögðu gert til að koma til móts við nýjan veruleika og til að fara eftir þeim reglum sem gilda um samkomur og samneyti þá helgi sem keppnin fer fram. Tveggja metra reglan verður virt og stærð ræsingar á hverri vegalengd fyrir sig innan leyfilegra marka þannig að auðvelt verður að fara eftir hámarksfjölda á hverjum stað á hverjum tíma.
Nánari upplýsingar Allar nánari upplýsingar er að finna á Hengillultra.is.
|